top of page
CLIMBING-MOUNT-MERU-IN-TANZANIA-5-1024x683_edited.jpg

Tansanía: Gönguferð á Mt. Meru og Kilimanjaro janúar 2025

28. janúar 2025
14-21 dagur
frá 599.900 kr

Framandi náttúra Tansaníu, gleði og menning heimamanna gera þessa ferð að ævintýralegustu gönguferð lífs þíns.

 

Í þessari gönguferð ætlum við að ganga á Mt. Meru (4.566 m) sem er næst hæsta fjall Tansaníu. Við ætlum einnig að ganga á Kilimanjaro (5.895 m) sem er hæsta fjall Afríku. Mt. Meru er staðsett í miðjum Arusha þjóðgarðinum. Fjallið er tignarlegt eldfjall um 70 km vestur af Kilimanjaro. Þegar toppnum er náð við sólarupprás er fagurt útsýni til allra átta og þar á meðal Kilimanjaro. Kilimanjaro er hæsta frístandandi fjall heims og eitt stærsta eldfjall heims sem rís upp frá sléttum Tansaníu.

Á gönguleiðinni er farið í gegnum öll gróðurbelti jarðar þar sem loftslagið sveiflast frá hitabelti niður fyrir frost á hæsta tindi Kilimanjaro, Uhuru peak. Þegar toppnum er náð er magnað útsýni yfir sléttur Tansaníu sem er einstakt.

Eftir gönguferðina er í boði að fara í 3ja daga safarí og Zansibar, eyjuna sem er þekkt fyrir afslappað umhverfi, fallegar strendur, fagurbláan sjó og einstaka menningu. 

Við byrjum göngu á Mt. Meru til að aðlagast hæðinni betur fyrir gönguna á Kilimanjaro. Gangan á Meru tekur 4 daga en þar er gist í skálum, allur matur og drykkir eru innifaldir. Á fjórða degi þegar göngunni lýkur erum við keyrð beint á hótel. Þar gistum við eina nótt áður en við byrjum gönguna á Kilimanjaro daginn eftir. Gangan á Kilimanjaro tekur 6 daga en þar gistum við í tjöldum. Allur farangur, matur og búnaður er borinn upp á fjallið af burðarmönnum. Innifalið í ferðinni eru þrjár máltíðir á dag (hægt að fá grænmetisrétti). Það eru kokkar sem sjá um alla eldamennsku á fjallinu. Það eina sem þátttakendur þurfa að bera er lítill bakpoki

með vatni og auka fatnað.

Gengið verður í mismunandi hæð og veðurfar hugsanlega ólíkt eftir því. Það getur orðið kalt á kvöldin, nóttunni og efst í fjallinu. Einnig getur gangan orðið krefjandi þegar ofar dregur vegna þunna loftsins. Fólk þarf því að vera vel undirbúið og með réttan búnað. Með því að ganga fyrst á Mt. Meru og aðlagast hæðinni þá erum við að auka líkurnar á því að toppa Kilimanjaro. Það verður í boði að gera jóga og öndunaræfingar fyrir og eftir göngu alla dagana.

Gist verður á hóteli fyrir og eftir göngu bæði á Mt. Meru og Kilimanjaro. Hægt að bæta við safari ferð og Zansibar eftir gönguferðina. Þær ferðir greiðast aukalega

Greiða þarf staðfestingargjald til að festa sæti við bókun, staðfestingargjaldið er 80.000 kr. Til að fá frekari upplýsingar er hægt að senda póst á ferdasetrid@ferdasetrid.is

Lámarksfjöldi 10, hámark 14

Fararstjórn: Edith Gunnarsdóttir og Elinas Jackson

Verð: 599.900 kr​* fyrir gönguferðina á Mt. Meru og Kilimanjaro

*miðað við tvíbýlí, aukagjald vegna einbýli er 60.000 kr

Innifalið í verði:

 • Akstur til og frá flugvelli að hóteli 

 • Akstur að upphafsstað göngu og til baka á hótel

 • Gisting 3 nætur á hóteli, fyrir og eftir gönguferðir með morgunmat

 • Íslensk og erlend fararstjórn 

 • Öll þjónusta á fjallinu, yfirleiðsögumaður, aðstoðar leiðsögumenn, burðarmenn og kokkur

 • Skálagisting 3 nætur á Mt. Meru

 • Tjaldgisting 5 nætur á Kilimanjaro

 • Eldhústjald, svefntjöld og dýnur

 • Matur á göngunni, hægt að fá grænmetisrétti (3 máltíðir á dag)

 • Vatn, kaffi, kakó og te

 • Þjóðgarðsgjöld

 • Súrefnistankar

 • Staðfestingarskjal um að hafa lokið göngu

 • Undirbúningsfundur

Ekki innifalið í verði:

 • Flug til Kilimanjaro - Ferðasetrið aðstoðar við kaup á flugi

 • Þjórfé

 • Vegabréfsáritun til Tansaníu

 • Ferða-, slysa- og farangurstrygging

 • Kvöldmatur fyrir og eftir göngu á hóteli

Dagskrá:

Dagur 1. Þriðjudagur 28. janúar 2025

Ferðadagur, flug frá Íslandi til Tansaníu. Ferðaskrifstofa aðstoðar með bókun á flugi. 

Dagur 2. Miðvikudagur 29. janúar 2025

Velkomin til Tansaníu. Akstur á hótel í Arusha, frjáls tími. Upplýsingafundur með fararstjórum ferðarinnar kl. 18.

Innifalið: Akstur og hótelgisting

Dagur 3. Fimmtudagur 30. janúar 2025

Eftir morgunmat ökum við í Arusha þjóðgarðinn að Momella hliðinu sem er í tæplega 1600 metra hæð, þar sem gangan byrjar. Þar hittum við fararstjórana sem verða með okkur í ferðinni. Gengið er í Miriakamba búðir sem eru í 2500 metra hæð. Þar gistum við í skálum. Ganga dagsins er 11 km, 1000 metra hækkun og tekur 5 - 6 klst.

Innifalið: Morgun- hádegis- og kvöldmatur, akstur að hliði, gisting í skála og leiðsögn

Dagur 4. Föstudagur 31. janúar 2025

Eftir morgunmat er gengið frá Miriakamba búðum í Saddle búðir sem eru í 3500 metra hæð og þar er gist í skálum. Fyrir þau sem vilja þá verður í boði að ganga á litla Meru (3820). Ganga dagsins er 7

 km, 1000 metra hækkun og tekur um 4 – 5 klst

Innifalið: Morgun- hádegis- og kvöldmatur, gisting í skála og leiðsögn

Dagur 5. Laugardagur 1. febrúar 2025

Við byrjum toppagöngu um miðnætti, gangan er erfið en vel þess virði. Markmiðið er að ná toppi Meru, Socialist Peak (4.566 m) við sólarupprás. Útsýnið af tindinum er stórkostlegt. Eftir að toppnum er náð er gengið aftur niður í Miriakamba búðir sem eru í 2500 metra hæð og þar er gist í skálum. Ganga dagsins er 12 km og 1100 metra hækkun upp á toppinn og niður í skála aftur og tekur um 10 - 12 klst. Eftir hádegi göngum við niður í næsta skála 7 km ganga niður og 1000 metra lækkun og tekur um 3 klst.

Innifalið: Morgun- hádegis- og kvöldmatur, gisting í skála og leiðsögn

Dagur 6. Sunnudagur 2. febrúar 2025

Eftir morgunmat er gengið frá Miriamkamba búðum niður að Momella hliðinu sem er í tæplega 1400 metra hæð. En þar endar gangan. Við erum sótt og keyrð á hótel í Arusha. Þar látum við þreytuna líða úr okkur áður en við byrjum göngu á Kilimanjaro daginn eftir. Ganga dagsins er 7 km og 1100 metra lækkun og tekur um 2 - 4 klst.

Innifalið: Gisting á hóteli, morgun og hádegismatur, leiðsögn og akstur á hótel

Dagur 7. Mánudagur 3. febrúar 2025

Eftir morgunmat keyrum við að Machame hliðinu (1800 m) þar sem gangan byrjar. Við hittum fararstjórana sem verða með okkur. Göngum í Machame búðir sem eru í 3000 metra hæð. Þar verða burðarmenn búnir að setja upp tjaldbúðir. Gist í 2ja manna tjöldum. Ganga dagsins er 11 km, 1200 metra hækkun og tekur um 5 - 7 klst.

Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldmatur. Akstur að hliði, gisting í tjaldi og leiðsögn.

Dagur 8. Þriðjudagur 4. febrúar 2025

Eftir morgunmat er gengið frá Machame búðum í Shira búðir sem eru í 3.950 metra hæð. Gisting í tjöldum. Ganga dagsins er 5 km, 900 metra hækkun og tekur um 4- 6 klst.

Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldmatur. Gisting í tjaldi og leiðsögn

Dagur 9. Miðvikudagur 5. febrúar 2025

Eftir morgunmat er gengið frá Shira búðum upp í Lava Tower (4.600 m). Þar borðum borðum við hádegismat áður en við lækkum niður aftur. Gengið frá Lava Tower niður í Barranco búðir (3.950 m). Gisting í tjöldum. Ganga dagsins er 10 km, 800 metra hækkun og tekum um 6-8 klst.

Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldmatur. Gisting í tjaldi og leiðsögn

Dagur 10. Fimmtudagur 6. febrúar 2025

Eftir morgunmat göngum við frá Barranco búðum upp Barranco wall og í Barafu búðir (4.673 m). Gisting í tjöldum. Ganga dagsins er 10 km, 900 metra hækkun og tekur 6 - 8 klst.

Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldmatur. Gisting í tjaldi og leiðsögn

Dagur 11. Föstudagur 7. febrúar 2025

Toppadagur, við byrjum göngu um miðnætti og göngum fyrstu klukkustundirnar með höfuðljós að Stella Point (5.756 m). Þar ætlum við að njóta sólarupprásarinnar áður en við höldum áfram síðasta hlutann að Uhuru tindinum (5.895 m). Eftir að við erum búin að njóta þess að standa á hæsta tindinum höldum við aftur niður í Barfu búðir í (4.673 m). Þar tökum við smá  hvíld  áður en við höldum áfram niður í  Mweka búðir (3.068). Gisting í tjöldum. Ganga dagsins er 5 km upp og 12 km niður, 1200 metra hækkun, 3000 metra lækkun,  tekur 7 - 8 tíma upp og 5 - 6 tíma niður. 

Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldmatur. Gisting í tjaldi og leiðsögn

Dagur 12. Laugardagur 8. febrúar 2025

Eftir morgunmat er gengið frá Mweka búðum niður af fjallinu að Mweka hliðinu (1.640 m). Þar endar gangan og við erum sótt og keyrð aftur á hótel í Arusha. Ganga dagsins er 10 km og tekur um 5 klst

Innifalið: Morgunmatur, hótelgisting, leiðsögn og akstur á hótel.

Dagur 13. Sunnudagur 9. febrúar 2025 - þau sem taka ekki safarí

Eftir morgunmat er frjáls tími áður en við erum keyrð á flugvöllinn. Hægt að kaupa safarí og Zansibar aukalega.

Heimkoma + 1 dagur (10. febrúar 2025)

Innifalið: Morgunmatur og akstur á flugvöll

Dagur 13. Sunnudagur 9. febrúar 2025 - þau sem ætla í safarí eftir gönguna

Eftir morgunmat pökkum við saman farangrinum okkar. Keyrum í Tarangire þjóðgarðinn á opnum 4x4 sérútbúnum safarí jeppum. Í þjóðgarðinum upplifum við hið magnaða villta dýralíf. Eftir daginn keyrum við á hótel í Karatu þar sem við gistum í 2 nætur.

Innifalið: Morgun- og hádegismatur, hótelgisting, leiðsögn og akstur

Dagur 14. Mánudagur 10. febrúar 2025

Eftir morgunmat keyrum við inn á Ngorongoro náttúruverndarsvæðið sem er á heimslista UNESCO. Heimsækum Massai ættbálkinn. Keyrum niður í Ngorongoro gíginn sem er stærsta askja heims. Skoðum villta dýralífið á svæðinu.

Innifalið: Morgun- og hádegismatur, hótelgisting, leiðsögn og akstur

Dagur 15. Þriðjudagur 11. febrúar 2025

Eftir morgunmat pökkum við saman farangrinum okkar og höldum aftur til Arusha. Á leiðinni skoðum við listagallerí og endum þennan dag á að fara og sjá kaffirækt, beint frá bónda í bolla. Fyrir þau sem ekki fara á Zansibar, er farið á hótel og flogið til Íslands 12. febrúar. Fyrir þau sem fara á Zansibar er flogið seinni partinn.

Innifalið: Morgunmatur, hótelgisting, leiðsögn og akstur

Dagur 16. Miðvikudagur 12. febrúar 2025

Fyrir þau sem ætla ekki á Zanzibar. Flug til Íslands. Akstur á flugvöll. Heimkoma + 1 dagur (14. febrúar 2025)

bottom of page